Apple hefur gefið út skuldabréf að fjárhæð 17 milljarða dala, andvirði um 2.000 milljarða króna, og er um stærstu skuldabréfaútgáfu sögunnar utan bankageirans, að því er segir í frétt BBC. Lánsféð verður annars vegar notað til að kaupa eigin bréf fyrirtækisins af hluthöfum og til að hækka arðgreiðslur til þeirra.

Skuldabréfaútgáfan er áhugaverð ekki síst fyrir þær sakir að Apple situr á um 145 milljörðum dala í reiðufé, en þetta fé er að stærstum hluta geymt utan Bandaríkjanna og ef Apple kæmi með það heim þyrfti að greiða af því skatta til bandaríska ríkisins.

Þá eru vextir í Bandaríkjunum í sögulegu lágmarki og kostnaður við skuldabréfaútgáfuna því minni en ella. Hlutabréfakaupin og hækkun arðgreiðslna eiga að friða hluthafa, sem á undanförnum mánuðum hafa verið að ókyrrast. Frá því í september í fyrra hefur gengi bréfanna lækkað um ein 40%, ekki síst vegna þess að fólk hefur áhyggjur af því að vaxtarmöguleikar Apple séu takmarkaðir.