Bandarískur dómari hefur fundið tæknirisann Apple sekan um að hafa haft samráð við bókaútgefendur um verðlagningu á rafbókum. Dómarinn sagði að Apple hafi með þessu gerst sekt um að hafa reynt að hefta frjáls viðskipti og verðlagningu.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hélt því fram að tilgangurinn með samráðinu hafi verið að grafa undan sterkri stöðu Amazon á rafbókamarkaði. Bókaútgefendurnir, sem voru fimm talsins, hafa allir fallist á að greiða sektir. Penguin greiddi 75 milljónir dala, Hachette, HarperCollins og Simon & Schuster stofnuðu saman 69 milljóna dala sjóð sem á að nota til að bæta neytendum tjónið og Macmillan mun greiða 26 milljóna dala sekt.