Gengi hlutabréfa í Apple hefur ekki verið jafn hátt í nær 18 mánuði. Gengi bréfanna hefur hækkað um rúm 6% í dag og hefur þar með hækkað um nær 11% frá áramótum. Góð afkoma félagsins hefur gert fjárfesta bjartsýna, auk þess sem aðilar á markaði binda miklar vonir við iPhone 8.

Salan nam 78,4 milljörðum dala

Á síðasta ársfjórðungi seldi Apple fyrir 78,4 milljarða dala. Um er að ræða nýtt met, en fyrirtækið seldi einnig 78,3 milljónir eintaka af iPhone símum á þessu sama tímabili. Á sama tímabili árið 2015 seldi fyrirtækið 74,8 milljón eintök af snjallsímunum.

Tim Cook er á því að iPhone 7 Plús síminn hafi spilað stórt hlutverk, enda var hann gríðarlega vinsæll. Apple hefur alla tíð notið góðs af jólavertíðinni og eru nýju símarnir því iðurlega kynntir til leiks í september á hverju ári.

Apple hefur á síðustu árum reynt að bæta viðskiptamódel sitt með þjónustuvörum á borð við Apple Pay, AppleCare og AppleTv. Sú deild hefur vaxið innan fyrirtækisins og skilaði því 7 milljörðum dollara á fjórða ársfjórðungi 2016. Um er að ræða 18% aukningu milli ára.

2016 ekki dans á rósum

Ef litið er til heils árs, var 2016 þó ekki dans á rósum, því heilt yfir sá fyrirtækið fyrsta samdrátt í sölu frá árinu 2001. Greiningaraðilar á Wall Street hafa þá einnig haft áhyggjur af snjallsímamarkaðinum í heild sinni og þeirri samkeppnisstöðu sem þar ríkir.

iPadinn virðist þó vera óvinsælli en áður, enda hefur hann lítið breyst og því hafa neytendur ekki fundið ástæðu til þess að uppfæra spjaldtölvurnar á heimilunum. iPad tekjurnar hafa því dregist saman um 22% milli ára. Að sama skapi hefur sala í Kína dregist saman um nær 12%.

246 milljarðar í reiðufé

Fyrirtækið situr nú á 246 milljörðum í reiðufé. Greiningaraðilar hafa því verið að velta því fyrir sér hvort að fyrirtækið geti ekki nýtt fjármagnið betur, til þess að endurfjárfesta. Auk þess hafa neytendur ekki séð byltingarkenndar nýjungar frá fyrirtækinu í langa tíð.

Fjárfestar eru þó heilt yfir bjartsýnir, enda eru helstu kennitölur félagsins afar sterkar. Sama er að segja um spár greiningaraðila. Í dag uppfærði RBC Capital Markets spá sína, en félagið telur Apple geta náð 140 dollurum á hlut. Mizuho spá því að félagið fari í 135 dali á hlut og Maxim Group spá því að félagið fari jafnvel alveg upp í 173 dali.

Afmælisútgáfa og happatala í Kína

Bæði neytendur og greiningaraðilar binda miklar vonir við næsta iPhone síma. Síminn mun að öllum líkindum bera nafnið iPhone 8, en talan átta er einmitt happatala í Kína. Auk þess er um að ræða 10 ára afmælisútgáfu snjallsímans. Greiningaraðilar spá því að Apple muni leggja allt í það að gera símann einstakan.

Viðskiptavinir Apple teljast einnig vera meðal þeirra tryggustu í heimi, enda hefur þeim stundum verið líkt við trúarofstækismenn, sem stökkva á hverja nýju vöru sem fyrirtækið gefur út.

Stjórnendur Apple munu þó líklega þurfa að glíma við áframhaldandi styrkingu Bandaríkjadollarsins og hugsanlegar afleiðingar sem kunna að fylgja tilskipunum Donald Trumps.