Það sem skiptir máli fyrir löggæslu og vernd borgaranna er að vera viðbúinn því óútreiknanlega, segir Odd Reidar Humlegård, ríkislögreglustjóri í Noregi. Rætt var við hann og Alexöndru Bech Gjørv í Osló. Kveikjan að samtölunum var árás Anders Behring Breivik á Stjórnarráðshverfið í Osló og í Útey þann 22. júlí 2011. Gjørv var formaður svokallaðrar 22. júlí nefndar. Nefndin hafði það hlutverk að rannsaka viðbrögð opinberra aðila, svo sem lögreglu og heilbrigðiskerfisins, við árásunum.

Í lok nóvember síðastliðins réðst tölvuglæpamaður inn á vefsíðu Vodafone hér á Íslandi og stal þaðan persónuuppýsingum sem hann birti á netinu. Einungis tveimur dögum síðar lét hættulegur byssumaður lífið í miðju íbúðahverfi í Reykjavík eftir að hafa ógnað bæði almennum borgurum og lögreglunni. Þessir tveir atburðir, ólíkir sem þeir eru, eru skýr áminning um það að lögreglan og eftirlitsaðilar hér á landi þurfa, líkt og Norðmenn, að vera í stakk búnir til þess að vernda borgarana og takast á við hið óvænta þegar það gerist. Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sagði á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis eftir árásina á vef Vodafone, að mesta hættan sem steðjaði að Íslendingum væru tölvuglæpir.

Þurfum að vera viðbúin tölvuhryðjuverkum
Ríkislögreglustjórinn í Noregi sagðist ekki búast við því að árás, lík þeirri sem Breivik gerði, myndi verða aftur í Noregi í bráð. En annarskonar hættur gætu steðjað að. Eitt af því ófyrirsjáanlega sem menn þyrftu að vera viðbúnir væri tölvuhryðjuverk. Hann nefndi árás á greiðslukerfið sem dæmi. „Næsta árás getur verið þannig að við sjáum ekki neitt og heyrum ekki neitt. Þó getur kannski einhver verið að gera tölvuárás og fella greiðslukerfið okkar, þannig að t.d. enginn getur notað greiðslukortin. Hvað gerist ef greiðslukortin virka ekki? Þú getur ekki keypt mat, getur ekki keypt bensín á bílinn. Það yrði algjör ringulreið. Í byrjun hefur þetta engin áhrif en eftir þrjá eða fjóra daga getur þetta farið að hafa mjög mikil áhrif. Það skiptir því máli að hafa hugmyndaflug í að takast á við hið óvænta,“ sagði Humlegård. Auk tölvuhryðjuverka sagði Humlegård að mögulegir atburðir sem lögreglan verði að búa sig undir séu skæðar farsóttir, eitranir og annað slíkt. Þá benti hann á að víða í Noregi, til dæmis í Bergen, væru vatnsból óvarin. Lögreglan þyrfti að vera meðvituð um þetta.

Viðtölin við Humlegård og Gjørv verða birt í heild sinni á VB.is núna um helgina.