Þýskir skattheimtumenn hafa boðist til þess að fara í sjálfboðavinnu til Grikklands í leit að þarlendum skattsvikurum, að því er segir í Financial Times. Alls hafa 160 skattasérfræðingar boðið fram vinnu sína til að starfa í sérstöku átaki Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að bæta skattaeftirlit í Grikklandi. Segir í frétt FT að búast megi við því að grískur almenningur muni ekki taka því vel þegar þýskir embættismenn fara yfir skattframtöl þeirra og hnýsast í þeirra einkamál.

Yfirlýsingar grískra embættismanna hafa hins vegar verið mjög jákvæðar og er haft eftir einum slíkum að aðstoð sem þessi sé vel þegin. Andrúmsloftið í Grikklandi hefur hins vegar verið andsnúið Þjóðverjum, einkum eftir að greint var frá því að skipa ætti sérstakan fjármálastjóra til að fara yfir fjármál gríska ríkisins. ProtoThema, grískt götublað, lýsti skattaeftirlitsmönnunum sem „árásarliði þýskra skattheimtumanna“.