Íslandspóstur ohf. (ÍSP) hefur frá árinu 2004 til ársins 2014 varið 6.875 milljónum króna til fjárfestinga í fasteignum, lóðum, hlutabréfum, tækjum, áhöldum, bifreiðum og öðrum fastafjármunum. Á sama tíma hefur félagið selt fastafjármuni fyrir 1.065 milljónir og afskrifað fyrir 4.053 milljónir. Fjárfestingar í fastafjármunum umfram afskriftir og sölu eigna nema þannig 1.677 milljónum króna.

Uppsafnaður hagnaður ÍSP er 1.850 milljónir á tímabilinu, en félagið hefur greitt íslenska ríkinu, eina eiganda sínum, 1.984 milljónir í arð á sama tíma. Verð­mæti eigna félagsins hefur dregist mikið saman á tímabilinu, þrátt fyrir fjárfestingu umfram afskriftir og sölu eigna. Þannig hefur verð­gildi eigna Íslandspósts lækkað úr 6.706 milljónum árið 2004 í 4.873 milljónir árið 2014. Eigið fé hefur einnig lækkað úr 4.142 milljónum í 2.314 milljónir og sömuleiðis handbært fé, sem hefur lækkað úr 2.057 milljónum í 87 milljónir. Skuldir hafa lækkað lítillega úr 2.564 millj­ ónum í 2.559 milljónir. Allar tölur eru verðlagsleiðréttar, nema annað komi fram.

Ytri vöxtur ekki aukið arðsemi

ÍSP hefur undanfarin tíu ár lagt aukna áherslu á ytri vöxt félagsins, með sókn inn á nýja markaði og framboð á annarri þjónustu en útburði bréfa. Félagið keypti til að mynda Gagnageymsluna ehf. árið 2014, en það varð þar með fimmta dótturfélag ÍSP.

Þrátt fyrir fjárfestingar í þessa veru hefur arðsemi félagsins hrakað töluvert á sama tíma, til viðbótar við lakari eigna- og skuldastöðu. Þannig nam arðsemi eigin fjár 17,5% árið 2004 en var neikvæð um 1,8% í fyrra og hefur verið neikvæð í þrjú ár af fjórum á tímabilinu 2011 til 2014. Eiginfjárhlutfall Íslandspósts var 0,62 árið 2004 en var 0,47 í árslok 2014.

Fjárfestingar, afskriftir og sala eigna
Fjárfestingar, afskriftir og sala eigna
© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .