Rekstur Landsbankans er nú orðinn áberandi þyngstur meðal bankanna þriggja þegar horft er til kostnaðarþróunar, umfangs og arðsemi. Á meðan hinir tveir bankarnir hafa dregið markvisst úr kostnaði og almennt hagrætt í rekstrinum síðustu ár hefur bankinn setið eftir.

Fleiri útibú en hinir til samans

Frá ársbyrjun 2020 hefur arðsemi Landsbankans verið áberandi lökust og vel undir arðsemiskröfu Bankasýslunnar – sem fer með málefni bankans fyrir hönd ríkisins sem eiganda – eftir að hafa verið sú hæsta meðal bankanna á þriggja ára tímabilinu þar á undan. Landsbankinn er enn fremur sá eini sem arðsemin hefur fallið hjá.

Á tímabilinu 2017 til og með 2019 nam meðalarðsemi Landsbankans 8% samanborið við 6,1% hjá Íslandsbanka og aðeins 3,6% hjá Arion banka. Milli 2019 og 2021 fækkaði Arion starfsfólki um 17% og Íslandsbanki um 10%, alls 211 stöðugildi, og sín á milli lokuðu þeir sjö útibúum og fækkuðu þeim með því um helming á höfuðborgarsvæðinu, þar sem nú má finna fleiri útibú Landsbankans en hinna tveggja til samans. Hið sama gildir raunar um landsbyggðina, en Landsbankinn hefur verið í sérflokki hvað það varðar um árabil.

Tólf mánaða hlaupandi meðaltal kostnaðarhlutfalls – sem getur verið sveiflukennd stærð og er ekki mæld á alveg sama hátt milli bankanna – hefur fallið um tveggja stafa prósentutölu hjá Íslandsbanka og Arion banka og arðsemi tímabilsins aukist í 8,6% hjá þeim fyrrnefnda og heil 12% hjá þeim síðarnefnda. Á sama tíma fækkaði Landsbankinn starfsfólki um 7% og lokaði einu útibúi, en í byrjun júní síðastliðins bættist útibú bankans á Borgarfirði eystra að vísu í þann hóp.

Í svari við fyrirspurn blaðsins segir bankinn starfsemi útibúanna hafa verið breytt töluvert, meðal annars með aukinni fjarþjónustu sem sinna megi frá fjarlægum útibúum eftir þörfum og álagi hverju sinni. Stöðugildum útibúanetsins hafi auk þess verið fækkað um 40% frá árinu 2017, og fækkunin sé enn meiri á höfuðborgarsvæðinu, á sama tíma og markaðshlutdeild hafi aukist. Kostnaðarhlutfall Landsbankans hefur fallið um 3,8%, og arðsemi dróst saman um 1,2% milli tímabilanna og hefur numið 6,8% að meðaltali frá ársbyrjun 2020.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.