„Ég held – án þess að ég geti nákvæmlega séð það fyrir – að á fjölmiðlamarkaðnum megi almennt búast við meiri uppstokkun á næstunni. Bara miðað við þá stöðu sem við er að eiga, almennt,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365 [ 365 ]  í viðtali við Viðskiptablaðið sem birtist í dag.

„Ég er þar að vísa til minnkandi eftirspurnar, mun hærri fjármagnskostnaðar og miklu meiri atgangs frá ríkisstyrkta keppinautnum. Það er augljóst,“ segir hann. Ari segist þar vísa til auglýsinga frá RÚV þar sem borin eru saman lestur dagblaða og sjónvarpsáhorf.

Ari segir mikla skekkju vera á markaðnum og nefnir að niðurgreiðsla með skattfé til RÚV nemi meira en fjórðungi heildar auglýsingatekna allra dagblaða, útvarps- og sjónvarpsstöðva á Íslandi.

Hann segir það fela í sér beina atlögu að rekstrargrundvelli allra einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja í landinu. „Prentmarkaðurinn er ekkert í vari fyrir þessari skekkju frekar en útvarp og sjónvarp,“ bætir hann við.

Þarf ekki Dana til að koma auga á skekkjuna

Aðspurður hvort RÚV sé að drepa einkafjölmiðla segir Ari:  „Ég tel það augljóst að þessi skekkja á markaðnum mun á endanum leiða til þess – ef ekkert verður að gert. Ég tel að það þurfi ekki danskan mann til að koma auga á það. Skekkjan er svo mikil.“

Í ljósi þess að 365 hefur verið á hlutabréfamarkaði um nokkurt skeið – og fjárfestar sjá sér leik á borði og  afskrá félagið, vilja eiga það og reka – vaknar spurningin, í kjölfar orða Ara: Er eitthvert vit í því að eiga fjölmiðlil í þessu rekstrarumhverfi?

„Það er alveg ljóst að þetta er erfiðari rekstur heldur en margur annar, við núverandi skilyrði. Það þarf allavega bjartsýna menn, að því er varðar þróun þessa lagaumhverfis og bara almennt.  Þetta er ekki vettvangur fyrir svartsýna menn,“ segir hann.