Ari Edwald tók við sem forstjóri Mjólkursamsölunnar í sumar. Fyrirtækið er einn stærsti matvælaframleiðandi landsins og velti um 25 milljörðum króna á síðasta ári.

Ari segir að auknir innflutningskvótar til og frá Evrópusambandinu séu bæði ógn og tækifæri fyrir Mjólkursamsöluna og íslenskan landbúnað. „Þegar maður er að tala um að of hraðar og einhliða tollalækkanir muni hafa of miklar afleiðingar í því að minnka innlenda matvælaframleiðslu, þá er maður ekkert endilega að hafa áhyggjur af einstöku fyrirtæki eins og MS. Það félag, þótt það sé í eigu bænda, getur fræðilega staðið í innflutningi líka og nýtt sín viðskiptatengsl í ýmsar áttir,“ segir hann.

Ekki séríslenskt fyrirbæri

Ari segir að frekar verði að horfa á þetta í ljósi þróunar samfélagsins. „Að því sem snýr að mjólkurframleiðslunni þá eru tækifæri til dæmis varðandi skyrið. Þarna er kvótinn að fara úr 390 tonnum á ári í tæplega 4.000 tonn. Það er klárlega tækifæri og við seljum nú þegar mun meira skyr heldur en það. Við höfum látið framleiða fyrir okkur innan Evrópusambandsins, af því tollurinn hefur verið of hár. Fólk talar oft eins og tollar á innfluttar landbúnaðarvörur séu eitthvað séríslenskt fyrirbæri en þessi stóra heild, Evrópusambandið, ver sig af mikilli hörku með tollmúrum um sinn landbúnað.“

Hann segir að aftur á móti sé nokkuð geyst farið í samningnum varðandi innflutning á almennum osti til Íslands. „Það er auðvitað ákvörðun stjórnvalda að gera þetta, en þó að til dæmis 4.000 tonn af skyri til Evrópusambandsins séu ekki nema rúmlega 10 grömm á mann þeim megin, þá erum við að tala um 10% af ostamarkaðnum hérna á Íslandi sem verið er að afhenda Evrópusambandinu aðgang að með þessum samningi. Það er svolítið ójafnt. Og það sem er ósanngjarnt í nálgun Evrópusambandsins í svona viðræðum er að það vill alltaf kíló fyrir kíló, þó að við séum bara rúmlega 300 þúsund og þeir 350 milljónir,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .