Afkoma Arion banka á fyrri helmingi ársins 2011 var jákvæð um 10,2 milljarða króna eftir skatta samanborið við 7,9 milljarða á fyrri helmingi ársins 2010. Er afkoman umfram áætlanirs samkvæmt tilkynningu frá Arion banka, sem skýrist einkum af endurmati á útlánasafni bankans á fyrirtækjasviði. Arðsemi eigin fjár var 20,3% á ársgrundvelli. Á öðrum ársfjórðungi fór fram lokauppgjör Arion banka við þrotabú Kaupþings banka. Er hálfsársuppgjörið nú fyrsta uppgjör Arion banka þar sem þessir aðilar eiga engar kröfur hvor á annan. Í tilkynningu segir að um mikilvægan áfanga sé að ræða til einföldunar á efnahagsreikningi Arion banka. Eiginfjárhlutfall bankans styrktist og var 21,4% í lok tímabilsins sem er vel yfir mörkum FME. Einnig eru lausafjárhlutföll bankans vel yfir settum mörkum. Árshlutareikningurinn er kannaður af endurskoðendum bankans.

Helstu atriði árshlutareikningsins

•Hagnaður eftir skatta nam 10,2 mö.kr. á fyrri árshelmingi 2011 samanborið við 7,9 ma.kr. á sama tímabili árið 2010.

• Hreinar rekstrartekjur námu alls 24,5 mö.kr. á tímabilinu samanborið við 17,1 ma.kr. árið 2010.

• Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu námu 11,2 mö.kr. samanborið við 10,3 ma.kr. árið 2010.

• Hreinar þóknanatekjur námu 5,1 ma.kr. samanborið við 2,9 ma.kr. á sama tímabili 2010. Aukningin skýrist einkum með tilkomu nýrra dótturfélaga í samstæðuna á seinni hluta ársins 2010.

• Endurmat á eignum bankans leiddi til 3,9 ma.kr. virðisaukningar sem bókfærð er í gegnum rekstrarreikning þegar hlutdeild Kaupþings í hækkuninni hafði verið tekin með.

• Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 20,3% en var 17,6% á sama tímabili árið 2010.

• Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,2% á tímabilinu samanborið við 2,8% á sama tímabili árið 2010. • Reiknaður tekjuskattur á fyrri helmingi ársins nam 2,5 mö.kr. en var 1,5 ma.kr. fyrir sama tímabil árið 2010. Til viðbótar nam sérstakur bankaskattur 446 milljónum á tímabilinu.

• Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 52,4% samanborið við 50,0% á sama tímabili 2010.

• Eiginfjárhlutfall var 21,4% samanborið við 16,6% í lok júní 2010 og 19% í árslok 2010. FME gerir kröfu um amk. 16% eiginfjárhlutfall.

• Lausafjárhlutfall bankans var 35,0% sem er afar sterkt og vel yfir 20% kröfu FME.

• Reiðufjárhlutfall bankans var 16,0%, en FME gerir kröfu um 5%.

• Útlán til viðskiptavina námu 447,7 mö.kr. í lok tímabilsins samanborið við 451,2 ma.kr. í lok árs 2010.

• Innlán viðskiptavina námu 448,7 mö.kr. samanborið við 457,9 ma.kr. í árslok 2010.

• Heildareignir námu 805,3 mö.kr. samanborið við 812,6 ma.kr. í árslok 2010.

• Eigið fé bankans í lok tímabilsins var 117,2 ma.kr. en nam 109,5 ma.kr í lok árs 2010.

• Á tímabilinu greiddi bankinn arð til ríkisins upp á rúma 6 ma.kr. skv. sérstöku samkomulagi milli Skilanefndar Kaupþings og ríkisins frá september 2009 um greiðslu arðs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

• Í lok tímabilsins voru 1.248 stöðugildi hjá samstæðunni, samanborið við 1.142 á sama tímabili árið 2010. Aukningin stafar einkum af innkomu nýrra dótturfélaga í samstæðuna. Þar af voru stöðugildi hjá móðurfélaginu, Arion banka, 947 samanborið við 976 á sama tímabili árið 2010.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir í tilkynningu: „Við erum sátt við uppgjör bankans. Þetta er sterkt uppgjör og gefur okkur góðan grunn í því starfi sem framundan er. Umhverfið er og verður áfram krefjandi. Enn er mikil óvissa bæði hér á landi sem og erlendis og því skiptir það miklu að starfsemin hvíli á traustum stoðum. Fjárhagslegur styrkur bankans hefur verið forgangsverkefni hjá okkur ásamt úrlausnarmálum viðskiptavina okkar. Sá árangur sem við höfum náð á þessum sviðum gefur okkur mikilvæga vissu um stöðu bankans sem ekki var til staðar við stofnun hans. Nú getum við beint kröftum okkar í ríkari mæli að verkefnum framtíðarinnar. Þar leggjum við mikla áherslu á að veita viðskiptavinum okkar fjölbreytta fjármögnunarkosti er kemur að kaupum á íbúðarhúsnæði. Arion banki hefur ítrekað tekið frumkvæði í þeim efnum. Fyrr á árinu komum við fram með hagstæð verðtryggð íbúðalán og þann 15. september munum við byrja að bjóða viðskiptavinum okkar hagstæð óverðtryggð íbúðalán, með föstum vöxtum til fimm ára. Binding vaxta í fimm ár er lykilatriði til að takmarka þá óvissu og áhættu sem fylgir breytilegum óverðtryggðum vöxtum fyrir heimilin í landinu.“