Arion Banki hafði betur í útboði um rekstur Eftirlaunasjóðs íslenskra atvinnuflugmenna (EFÍA). Um stóran sjóð er að ræða, 16,6 milljarða króna. Landsbankinn hafði séð um stýringu sjóðsins síðastliðin 18 ár þegar ákveðið var að endurnýja samninga fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Gildandi samningur var hagfelldur eftirlaunasjóðnum og vildi Landsbankinn hækka gjöldin. Arion Banki, Landsbankinn og Almenni lífeyrissjóðurinn tóku þátt í útboði um rekstur sjóðsins. Arion Banki hafði betur og er nú unnið að flutningi sjóðsins á milli bankanna.

Kostnaður við rekstur EFÍA var umtalsverður í fyrra. Skrifstofu og stjórnunarkostnaður sem fellur undir rekstur nam 14,6 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt ársuppgjöri. Það jafngildir tæpum 28 þúsund krónum á hvern greiðanda sjóðsfélaga sem eru 529 talsins.

Til samanburðar kostaði rekstur Lífeyrissjóðs verslunarmanna hvern virkan sjóðsfélaga 8.300 krónur í fyrra. Heildareignir Lífeyrissjóðs verslunarmanna námu 310 milljörðum króna í lok síðasta árs.

Sá fyrirvari skal hafður á að rekstur smærri sjóða er alla jafna meiri en þeirra sem stærri eru.

Engir starfsmenn eru hjá EFÍA og sá Landsbankinn alfarið um rekstur hans öll árin. Sjóðurinn er einn þeirra fimm sem embætti sérstaks saksóknara hafði til rannsóknar vegna gruns um að farið hafi verið út fyrir lagaramma um fjárfestingarákvæði. Embættið hætti rannsókninni en frá því var greint í gær að Fjármálaeftirlitið hafi kært ákvörðun embættis sérstaks saksóknara og vilji kanna hvort grundvöllur sé að halda rannsókninni áfram.