*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 3. október 2019 08:51

Arkitektar sveiflast með efnahagslífinu

Ásdís Helga Ágústsdóttir, arkitekt og framkvæmdastjóri Yrki arkitekta, segir arkitekta meðal fyrstu til að finna fyrir niðursveiflum.

Ritstjórn
Ásdís Helga Ágústsdóttir, arkitekt og framkvæmdastjóri Yrki arkitekta.
Gígja Einarsdóttir

Ásdís Helga Ágústsdóttir, arkitekt og framkvæmdastjóri Yrki arkitekta, segir að stofan hafi tekið að sér fjölda stórra verkefna í fyrra. 

„Það má í raun segja að það hafi hrúgast inn stór verkefni til okkar á síðustu tveimur árum. Meðal þessara stóru verkefna sem við höfum verið að vinna má nefna nýja Stúdentagarða Háskóla Íslands, en alls eru 240 íbúðir á þeim og verður framkvæmdum lokið um næstu áramót. Þá höfum við einnig verið að vinna í byggingarverkefni við Móaveg, sem er í gegnum íbúðafélagið Bjarg og eru 156 íbúðir þar á lokastigi. Auk þess höfum við verið í hönnunarvinnu fyrir Helgafellsskóla, sem er í framkvæmd í Mosfellsbæ. Þetta er mjög stór bygging, eða um 8.000 fermetrar, en byggingin mun hýsa grunn- og leikskóla. Við höfum sömuleiðis tekið að okkur stór innanhússhönnunarverkefni og sáum við t.d. um innanhússhönnun í höfuðstöðvum Sýnar." 

Ásdís segir að Yrki leggi mikið upp úr góðri markaðssetningu, en stofan markaðssetji sig á annan hátt en margar aðrar stofur. „Við erum dugleg að fara þessar hefðbundnu leiðir eins og að taka þátt í útboðum og samkeppnum. En svo erum við einnig mikið í því að leita að samstarfi þar sem við undirbúum verkefni sjálf. Þannig sjáum við tækifæri í að kaupa t.d. fasteign eða land og vinnum svo að verkefninu með fyrirtæki eða einstaklingum. Sem dæmi vorum við með íbúðaverkefni á Strandgötu í Hafnarfirði, en þar komu verktakar á svæðið til að hefja framkvæmdir og þá seldum við okkur út úr verkefninu. Á þeim tímapunkti vorum við búin að útbúa deiliskipulagið og gera allar teikningar sem á þarf að halda. Á þennan hátt náum við stundum að skapa okkur verkefni."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.