© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Arkur ehf, fjárfestingafélag Steinunnar Jónsdóttur, átti eignir upp á 4,3 milljarða króna um síðustu áramót. Félagið hagnaðist um 92,2 milljónir króna í fyrra en hafði tapað 118,7 milljónum króna árið áður. Eignir félagsins voru að mestu bundnar í verðbréfum, um þrír milljarðar króna, en auk þess átti félagið eignarhluti í innlendum félögum fyrir 673 milljónir króna. Óráðstafað eigið fé var um 2,8 milljarðar króna. Langtímaskuldir félagsins voru um 1,5 milljarður króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Arks ehf. fyrir árið 2010 sem skilað var inn til ársreikningaskráar í júní. Arkur hefur verið áberandi í fjárfestingum á Íslandi það sem af er þessu ári. Félagið keypti 2,73% hlut í MP banka í vor og það er einnig á meðal eigenda SF1 sem keypti 52,4% hlut í Sjóvá í lok júlí.