Reykjaneshöfn tapaði 650 milljónum króna í fyrra. Samanlagt nemur tapið á síðastliðnum fimm árum 2,8 milljörðum króna. Heildarskuldir hafnarinnar nema nú 7,3 milljörðum króna. Fram kemur um málið í Fréttablaðinu í dag að kostnaðarsöm uppbygging í Helguvík skýri tapið að mestu.

Reykjaneshöfn er í eigu Reykjanesbæjar. Í Fréttablaðinu segir að áform um uppbyggingu við Helguvík hafi ekki gengið eftir og Reykjanesbær því þurft að endurfjármagna reksturinn með lántökum.

Árni Sigfússon, bæjarstjori Reykjanesbæjar, segir í samtali við blaðið það hafa verið miður að sitja uppi með fjárfestinguna í mörg ár og erfitt að fyrir sveitarfélagið að standa undir henni. „Von okkar og vissa er að um leið og þessi verkefni í Helguvík sem eru á borðinu fara af stað, og ég get nefnt fimm verkefni, muni þetta snúast fljótt við," segir Árni.