Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að Samfylkingin sé í lykilstöðu til að hafa áhrif á það hvort álver í Helguvík fái heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Því megi, segir hann, véfengja þau orð formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, í Viðskiptablaðinu í dag að Helguvík hafi verið frágengið mál áður en flokkurinn fór inn í ríkisstjórnina.

Hann segir að með þessum orðum sé Ingibjörg Sólrún að reyna að þvo hendur sínar af álversframkvæmdum og skjóta sér undan ábyrgð í þeim efnum. „Miðað við fyrri yfirlýsingar Samfylkingarinnar um loftslagsmál verður að ætla að flokkurinn vilji gera meira en þetta,“ segir hann.

Árni bendir á að þegar losunarheimildir hafi verið veittar í fyrsta sinn í lok september á síðasta ári, samanber lög um losun gróðurhúsalofttegunda, hafi Norðurál ekki fengið losunarheimild fyrir álverið í Helguvík. Hann segir enn fremur að við úthlutun leyfa gegni embættismenn iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og fjármálaráðherra lykilhlutverki. Þetta mál sé því í raun á flokksforræði formanns Samfylkingarinnar.

„Ísland hefur undirgengist skuldbindingar samkvæmt Kyoto bókuninni og ef Samfylkingin vill fara fram af varúð í þeim málum væri hægt að fresta frekari uppbyggingu að minnsta kosti þar til liggur fyrir hver niðurstaðan verður í Kaupmannahöfn árið 2009,“ segir hann.