Árni Helgason, lögmaður og uppistandari, mun ekki gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir bæjarstjórnarkosningarnar næsta vor. Árni tilkynnti þetta í færslu á Facebook um tvöleytið í dag.

Ásgerður Halldórsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna og bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, gaf það út í byrjun árs að hún ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu eftir þriðja kjörtímabilið sitt. Árni hafði verið sterklega orðaður við framboð, en Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni og forseti bæjarstjórnar, er sá eini sem hefur tilkynnt framboð sitt opinberlega, eins og Viðskiptablaðið greindi frá.

Innherji greindi frá fjórum líklegustu frambjóðendum í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Auk Árna og Magnúsar eru þau Ragnhildur Jónsdóttir, hagfræðingur og fyrsti varamaður á lista flokksins, og Þór Sigurgeirsson, verkefnastjóri hjá Rými og fyrrverandi bæjarfulltrúi, nefnd til sögunnar. Þess má geta að faðir Þórs, Sigurgeir Sigurðsson, var bæjarstjóri Seltjarnarness í áratugi og sat í bæjarstjórn í 40 ár.