Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallar um skuldavandræði Grikklands. Í upphafi greinarinnar segist hann vilja fjalla um það algenga viðkvæði að vandi Grikkja sé bara þeim sjálfum að kenna. Kveðst hann vera ósammála því.

Hann segir að Grikkir hafi vissulega farið offari og tekið lán umfram getu til að greiða til baka. Grísk stjórnmál hafi verið gerspillt um áratugi og framgangur ríkisstarfsmanna í starfi hafi nær alfarið ráðist af flokkstengslum. Skattkerfið sé lélegt og skattheimta handahófskennd, sem hafi skaðað möguleika Grikkja til að auka ríkistekjur undanfarin ár og aukið á samfélagslega upplausn.

„Með nokkurri einföldun má nefnilega segja að skattkerfi Grikkja svipi til þess sem var á Íslandi árið 1975: Ef menn voru í réttum flokki fengu þeir að borga skatta á vaxtalausum víxlum í 60% verðbólgu og fyrirtæki sem skulduðu vörsluskatta fengu óáreitt að stunda rekstur áfram, ef þau nutu skjóls hjá yfirvöldum. Skattkerfisbreytingar á Íslandi urðu á endanum fyrir harðfylgi stjórnmálamanna sem skynjuðu kall tímans,“ skrifar Árni Páll.

„Siðlausar lánveitingar banka“

Árni Páll segir að allir viti að Grikkir hafi tekið lán umfram það sem greiðslugeta þeirra leyfði og farið á svig við reglur evrusamstarfsins um skuldsetningarhlutfall ríkja. Þeir hafi notið þess að bankar lánuðu öllum evruríkjum á lítið hærri kjörum en Þýskaland naut.

„En allir vissu eða máttu vita að grískt efnahagslíf var ekki jafn sterkt og það þýska og geta til endurgreiðslu ekki sambærileg. Lánveitingarnar réttlættu bankarnir á þeirri væntingu að ríkissjóðir annarra evruríkja myndu hlaupa undir bagga með Grikkjum ef harðnaði á dalnum, þótt hvergi væri í evrusamstarfinu að finna fyrirheit um slíkt,“ segir hann.

Þá segir Árni Páll að stærsti hluti vandans sé ekki skuldsetning Grikkja heldur siðlausar lánveitingar banka, sem reikni með því að forgangur fjármagns yfir fólki verði ávallt tryggður.

„Það var enginn sem píndi evrópska banka til að lána Grikkjum gríðarfé á áþekkum kjörum og Þjóðverjum buðust. Af hverju finnst okkur alltaf að bankar eigi að fá allt sem þeir lána til baka og að öllu sé fórnandi til að það takist? Um það mun ég fjalla í næstu grein,“ segir Árni Páll að lokum.

Greinina má lesa í heild sinni hér.