„Þetta kemur ekki á óvart. Þetta kom upp úr fyrri greiningum á skuldastöðu heimilanna,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um tölur fjármálaráðuneytisins sem birtar voru í dag. Þær sýna að 26 þúsund af 94 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess. Það er 28% íbúðaeigenda.

„Þar til viðbótar er fjöldi sem á ekki húsnæði heldur leigir,“ segir Árni Páll og bendir á að það sé langt því frá að öll heimili séu í skuldavanda. Fyrri greiningar hafi sýnt að greiðsluvandinn sé alls ekki verstur hjá þeim sem eru í mestum skuldavanda.  „Greiðsluvandinn er einkum hjá láglaunafólki og á meðal þeirra er auðvitað stór hluti á leigumarkaði,“ segir Árni Páll. Mestu skuldirnar séu hjá ríkasta fólkinu. „Þetta eru nú ástæðurnar fyrir því að ég hef ekki getað talað fyrir almennri skuldalækkun sem lausn á vanda fólks,“ segir Árni Páll. Árangurinn af almennri skuldalækkun mun koma mjög misjafnlega við ólík heimili.

Árni Páll ítrekar að fjöldi fólks sé á leigumarkaði og algengasta formið á leigusamningum sé verðtryggð leiga. „Þannig að ef það hefur orðið einhver forsendubrestur meðal kaupenda þá hefur hann líka orðið hjá leigjendum,“ segir Árni Páll.