*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 6. mars 2015 14:51

Árni Páll segist enn vera fylgjandi ESB-aðild

Árni Páll Árnason segist hafa þann sið að endurmeta reglulega staðreyndir, en afstaða hans til ESB hafi ekki breyst.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að í frétt á vef sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautarinnar hafi það verið afflutt sem hann sagði í viðtali. Í fréttinni sagði að Árni Páll hefði verið að næra með sér efasemdir um Evrópusambandið og evruna og að ef eitthvað væri hefðu þær ágerst í seinni tíð.

Árni Páll segir í samtali við VB.is að í viðtalinu hafi hann þó sagt að hann væri enn á þeirri skoðun að hagsmunum Íslands væri best borgið innan ESB.

"Í flóknum málum hef ég alltaf þann sið að efast reglulega, endurmeta staðreyndir og skoða hvort nýjar fréttir eigi að hafa áhrif á afstöðu mína. Í þessu máli er alltaf um hagsmunamat að ræða. Við höfum krafist þess af öðrum flokkum að þeir byggi sína afstöðu á hagsmunamati en ekki hindurvitnum og því eðlilegt að við gerum sömu kröfu til okkar sjálfra.

Mín skoðun er sú að aðild að Evrópusambandinu verði okkur mjög gott skref og leið til að leysa stór vandamál sem við okkur blasa. Aðild gæti leyst okkur undan viðjum krónunnar, tryggt fyrirtækjum vaxtarskilyrði og stöðvað flótta fólks frá landinu og laðað til baka þá sem þegar hafa flutt af landi brott."