Árnný Guðjónsdóttir héraðsdómslögmaður hefur hafið störf hjá Land lögmönnum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins. Meginstarfsstöð Árnnýjar er í Kópavogi en hún mun jafnframt vera viðskiptavinum stofunnar innan handar á Selfossi.

Árnný útskrifaðist með meistaragráðu í lögum frá Háskólanum á Bifröst sumarið 2010 og braut þá blað í sögu skólans þegar hún fékk hæstu einkunn sem gefin hefur verið fyrir meistararitgerð. Frá útskrift hefur Árnný sinnt margvíslegum störfum innan lögfræðinnar ásamt kennslu við Háskólann á Bifröst og Opna Háskólann í HR.

Árnný starfaði við skatteftirlit á námsárum sínum og eftir útskrift og hefur sérhæft sig í skattarétti. Árið 2012 hlaut hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Árnný er mikil áhugamanneskja um mannréttindi og málefni fatlaðra og hefur sinnt ýmsum sjálfboðastörfum fyrir MND félagið bæði hér á landi og erlendis.