Hagnaður af rekstri Spron samstæðunnar fyrir skatta nam 2.717 milljónum kr. á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 2.578 milljónir kr. sama tímabili árið áður. Hagnaður eftir skatta var 2.248 milljónir kr. og arðsemi eigin fjár var 51,5%. Hreinar rekstrartekjur Spron námu um 4,8 milljörðum króna. Rekstrarkostnaðarhlutfall var 41% á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 og hefur hækkað lítillega frá sama tímabili árið áður.

Framlag í afskriftareikning útlána lækkaði um 43% frá sama tímabili árið áður og nam alls 195 millj. kr. það sem af er árinu 2005. Vaxtamunur sparisjóðsins er 2,8% og hefur hækkað lítillega frá miðju ári. Vaxtamunur sparisjóðsins hefur lækkað frá fyrri árum með breyttri útlánasamsetningu en á sama tíma hafa vanskil og afskriftir lækkað töluvert. Útlán ásamt kröfum á lánastofnanir námu í lok tímabilsins tæpum 83 milljörðum króna, sem er um 51% aukning frá upphafi ársins. Heildarinnlán jukust um 5% og sem hlutfall af útlánum til viðskiptamanna námu þau 48%. Eigið fé sparisjóðsins jókst á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2005 um ríflega 58% og var í lok september 9.196 millj. kr. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 10,3%.