Afkoma þýska bankans Deutsche bank á öðrum ársfjórðungi var langt undir væntingum sérfræðinga og töluvert undir afkomunni á sama tíma í fyrra. Hagnaður bankans fyrir skatta á tímabilinu apríl til júní nam um einum milljarði evra, samanborið við 1,8 milljarða evra á sama tímabili í fyrra. Sérfræðingar höfðu búist við 1,5 milljarða evra hagnaði.

Hagnaður bankans nam 700 milljónum evra, en var 1,2 milljarðar fyrir ári. Sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir einum milljarði evra í hagnað. Bankinn er því langt frá því sem búist hafði verið við. Í frétt Financial Times segir að veiking evru gagnvart bandaríkjadal og sterlingspundi hafi aukið kostnað bankans. Stjórnendur bankans hafa í kjölfarið lýst því yfir að þeir muni draga úr áhættu í starfsemi sinni og eignarsafni til að mæta kröfum eftirlitsaðila um aukið eiginfjárhlutfall.