Að velja rétta staðinn, matinn, drykkina, veislustjórann, skemmtikraftana og hljómsveitirnar krefst skipulagningar og útsjónarsemi. Þegar halda á eftirminnilega árshátíð getur auðvitað líka hjálpað til að verja til þess mikils fjármagns. Viðskiptablaðið tók saman dæmi um árshátíðir sem heppnuðust vel og starfsmennirnir munu ekki gleyma svo glatt.

Eurovisionstjörnur hjá Kaupþingi

Þó að sumir Íslendingar beri ekki hlýhug til föllnu bankanna er líklegt að margir fyrrum starfsmenn þeirra minnist þeirra sælla minninga, að minnsta kosti hvað árshátíðirnar snertir. Á árunum fyrir hrun var öllu tjaldað til þegar kom að því að gera vel við starfsfólkið og árshátíðirnar báru þess skýrt merki.

Árið 2007 hélt Kaupþing árshátíð í Egilshöllinni þar sem þemað var Eurovision. Það segir sitt um árshátíðina að Eiríkur Hauksson, sem hafði verið valinn til þátttöku fyrir Íslands hönd í keppninni, hafi verið fenginn til að hita upp sem fyrsta skemmtiatriðið á sviðinu með því að flytja framlag Íslands í keppnina það árið.

„Já, þetta var voða fínt. Það voru mjög veglegar veitingar og þetta var eiginlega þessi útrásar og bankaandi í hnotskurn og kannski ákveðinn hápunktur á því. Þetta var risastórt að umfangi og umgjörð,“ segir Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi sem starfaði fyrir Kaupþing árið 2007 og var gestur á árshátíðinni.

Nánar er fjallað um málið í Fundum og ráðstefnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .