Líkja má ástandinu hér á landi við limbóland, við erum stödd í limbólandi.

Þetta sagði Ársæll Valfells, hagfræðingur á fyrirlestrinum Einhliða upptaka evru eða upptaka með inngöngu Íslands í Evrópusambandið? sem nú stendur yfir í Háskólanum í Reykjavík.

Ársæll lagði þó áherslu á að Ísland væri statt í miðjum stormi alþjóðlegrar fjármálakrísu þannig að Ísland væri ekki sér á báti um að eiga í erfiðleikum. Hins vegar geri gjaldeyrisvandamál landsins okkur erfiðari um vik en öðrum.

Ársæll sagði Ísland í raun gjaldmiðlalaust, hér væri enginn virkur gjaldmiðill. Þannig væri í raun mögulegt að taka einhliða upp krónu og notast við hana. Hann nefndi sem dæmi að önnur ríki og svæði notuðu einhliða gjaldmiðil, til dæmis notuðu um 600 þúsund manns mikka mús dal í Disney world á hverjum degi þannig að sú mynt væri í raun stærri en íslenska krónan.

Þá kom fram í máli Ársæls að undir venjulegum kringumstæðum væri aðild að ESB og myntsvæði sambandsins (EMU) besta leiðin. Hins vegar væri umsóknarferlið langt og á meðan hagkerfið „brynni undan fjármálakrísu, gjaldeyrishöftum og gengissveiflum“ gæti umsókn tekið of langan tíma.

Ársæll sagði að þó svo að Ísland myndi ganga í ESB væru önnur ríki í forgang um að taka upp evru.

Ársæll sagði þó að gjaldmiðilsskipti krefðust stuðningsaðgerða og lagði þar sérstaklega áherslu á aðhaldssemi í ríkisfjármálum. Það ætti þó við hvort sem við tækjum einhliða upp evru eða gengjum í ESB og tekjum þannig upp evru. Þá þyrfti að myndast sveigjanleiki á vinnumarkaði auk þess sem afnema þyrfti verðtryggingu. Hann tók sem dæmi að Þjóðverjar bönnuðu verðtryggingu á ný lán eftir að þeir tóku upp evru og settu sólarlagsákvæði á eldri lán.

Með upptöku nýs gjaldmiðils myndu gengissveiflur vegna krónunnar vera leystar í eitt skipti fyrir öll, að sögn Ársæls. Þá myndu vextir og verðbólga vera samskonar hér á landi og í Evrópu. Með upptöku evru fengi Ísland jafnframt mynt sem stýrt væri af einum besta seðlabanka heims.