Árvakur segir í dag upp 26 starfsmönnum. Þar af er 19 uppsagnir vegna fækkunar starfa en 7 vegna breytinga á starfseminni þar sem gert er ráð fyrir einhverjum endurráðningum.

Þetta kemur fram á vef Morgunblaðsins, mbl.is

Þar kemur fram að hluti þessara uppsagna tengist því að félagið lagði niður útgáfu 24 stunda fyrr í mánuðinum og hluti er vegna harkalegs samdráttar á auglýsingamarkaði vegna efnahagskreppunnar.

Þá kemur einnig fram að auk fækkunar starfa verða laun stjórnenda hjá fyrirtækinu lækkuð.

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, sagði í dag að þessar breytingar væru vitaskuld afar mikið áfall fyrir þá sem færu frá fyrirtækinu við þessar kringumstæður. Þær eru líka sársaukafullar fyrir félagið og þá starfsmenn sem halda áfram.