Heildarvirði hlutafjár í fasteignafélaginu Regin er 10,6 milljarðar miðað við niðurstöðu hlutafjárútboðs sem fram fór í upphafi síðustu viku. Útboðsgengi var ákveðið 8,2 krónur á hlut en í útboðslýsingu var gefið verðbilið 8,1-11,9 krónur á hlut. Útboðsgengið er því í lægri hluta verðbilsins.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, vildi ekki tjá sig um verðið en sagðist ánægður með niðurstöðu útboðsins. Undir það tók Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sem sagði forsvarsmenn bankans eðlilega hafa gert sér grein fyrir því að með því að gefa opið verðbil gætu verið meiri líkur en minni á að þunginn kæmi inn neðarlega á verðbilinu.

„Verðið er ásættanlegt fyrir bankann og við náum með þessu markmiðum okkar sem meðal annars eru þau að losa eignir sem ekki eru hluti af okkar kjarnastarfsemi,“ sagði Steinþór.

Fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf Regins í Kauphöllinni er áætlaður 2. júlí næstkomandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.