„Við tökum þátt í hörðum slag og harðri samkeppni hér og óttumst ekki þessa skoðun,“ segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, um húsleit Samkeppniseftirlitsins í húsakynnum félagsins. Starfsmenn eftirlitsins komu ásamt lögreglumönnum á skrifstofur Samskipa í morgun með heimild til húsleitar vegna ætlaðra brota á samkeppnislögum. Hald hefur verið lagt á bæði gögn á rafrænu formi og pappírum. Leitað var í húsakynnum Eimskips og dótturfélags þess, TVG Zimsen, á sama tíma.

Ásbjörn segir starfsmenn Samskipa hafa hjálpað til við húsleitina og hún gengið greiðlega fyrir sig. Fækkað hefur í liði eftirlitsins eftir því sem liðið hefur á daginn og gerir Ásbjörn ráð fyrir að húsleitinni ljúki nú síðdegis.

Ásbjörn segir stjórnendur Samskipa hafa ekkert að óttast. Þvert á móti hafi félagið átt í áralöngum samskiptum við Samkeppniseftirlitið um kvartanir og úrskurði eftirlitsins á starfsemi og starfsháttum Eimskips í gegnum árin.

Sektir gætu numið 8,5 milljörðum króna

Heimild Samkeppniseftirlitsins til húsleitar er byggð á ætluðum brotum á 10. og 11. grein samkeppnislaga . Lögin kveða m.a. á um bann við samráði á markaði, s.s. með verð, afslætti, álagningu og misnotkun á markaði í ljósi markaðsráðandi stöðu. Viðurlög geta hljóðað upp á sekt upp á 10% af veltu viðkomandi fyrirtækis auk þess sem þeir stjórnendur sem uppvísir eru að brotunum geti átt yfir höfði sér allt að sex ára dóm. Í tilviki Eimskips og Samskipa gæti sektargreiðslan numið allt að 8,5 milljörðum króna.

Samkeppniseftirlitið segir á vef sínum þau fyrirtæki sem reynast hafa tekið þátt í ólögmætu samráði geta á grundvelli reglna sem eftirlitið hefur sett komist hjá sektum eða lækkað mögulegar sektir með því að vinna með Samkeppniseftirlitinu við að upplýsa málið.