*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Erlent 12. mars 2020 13:08

Lausn Trump er alltaf að reisa múra

Stefna Trump vegna heimsfaraldursins harðlega gagnrýnd — „hvernig get ég gert þessa kreppu sem versta".

Trausti Hafliðason
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mike Pence varaforseti.
EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist bara hafa eina reglu varðandi stefnu sína vegna heimsfaraldursins sem nú geisar og hún er: „hvernig get ég gert þessa kreppu sem versta". Þetta ritar David Frum, ritstjóri hins rótgróna tímarits The Atlantic. Frum er repúblikani og fyrrverandi ræðuritari George W. Bush. Hefur hann skrifað fjölmargar bækur og þeirra á meðal bókina „Trumpocalypse: Restoring American Democracy".

„Forsetar eru ekki almáttugir (e. all-powerful), sérstaklega ekki þegar um heimsfaraldur er að ræða. Það eru takmörk fyrir því hvað þeir geta gert, bæði til góðs og ills," skrifar Frum. „Ákvarðanir Trump hvað faraldurinn snertir hafa á öllum stigum tryggt verstu mögulegu niðurstöðuna. Verstu niðurstöðuna fyrir lýðheilsu, bandaríska hagkerfið og stöðu Bandaríkjanna sem heimsleiðtoga."

Frum segir að Trump hafi oft farið yfir strikið en aðgerðirnar sem hann hafi boðað í ræðu sinni í gær, þegar hann lokaði landinu, hafi verið þær verstu á hans ferli. Bendir Frum síðan á að í ræðu sinni hafi Trump ekkert minnst á það sem mestu máli skiptir.

„Hann gaf hvorki skýringar á því hvað hafi farið úrskeiðis í skimunum fyrir kórónuveirunni í Bandaríkjunum né hvenær víðtækar skimanir hæfust.  Eiga borgar- og bæjarstjórnir að aflýsa hátíðarhöldum vegna dags heilags Patreks eftir fimm daga? Hann minntist ekki einu orði á opinbera viðburði, leiksýningar, íþróttaviðburði eða skólahald — ekki orð.

Hann útskýrði ekki stefnu stjórnvalda um hvernig ætti að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins innan Bandaríkjanna og veitti enga leiðsögn í þeim efnum.  Komið hefur í ljós að fyrri loforð forsetans um allir sem þyrftu á skimun að halda myndu fá aðstoð hafa reynst ósönn."

Trump tilkynnti í gær að samgöngur til Evrópu yrðu stöðvaðar. Er Frum hugsi yfir því hvers vegna Bretland sé undanskilið ferðabanninu. Annars segir hann að þetta sé mjög týpískt fyrir Trump. Til þess að vernda Bandaríkin sé lausnin alltaf að reisa múra. Segir hann að þessi ákvörðun muni reynast afdrifarík, uppsagnir í stórum stíl blasi við hjá fjölda fyrirtækja.

„Og hvaða skilaboð hafði Trump til þeirra sem koma til með missa vinnuna, engin. Heldur gaf hann aðeins óljósar vísbendingar um að von væri á einhverri tilkynningu fljótlega. Það er vissulega jákvætt að fólk muni ekki þurfa að greiða fyrir skimanir, skimanir sem engum stendur reyndar til boða."

Frum segir að hugsanlega blasi mjög alvarleg efnahagskreppa við og líkir dýfunni á fjármálamörkuðum við bankahrunið 2008. Bendir hann ennfremur á að Trump hafi haft tvo mánuði til að bregðast við yfirvofandi stöðu.

Eins og áður sagði þá var Frum ræðuritar George W. Bush. Stefnuræða Bush í janúar 2002 hefur meðal annars verið eignuð Frum en þá talaði forsetinn fyrrverandi í fyrsta skipti um Íran, Írak og Norður-Kóreu, sem öxulveldi hins illa (e. axis of evil). Var þetta fyrsta stefnuræða Bush eftir árásina á Tvíburaturnana 11. september 2001.