*

mánudagur, 13. júlí 2020
Fólk 25. maí 2020 13:10

Ásdís Káradóttir ráðin til Póstsins

Ásdís Káradóttir hefur verið ráðin sem skjalastjóri hjá Póstinum.

Ritstjórn
Ásdís Káradóttir, nýráðin skjalastjóri hjá Póstinum
Aðsend mynd

Ásdís Káradóttir hefur verið ráðin í starf skjalastjóra hjá Póstinum og hefur þegar hafið störf. Helstu verkefni skjalastjóra eru umsjón með skjalavörslukerfi Póstsins, stafræn þróun skjalastjórnar og mótun skjalastjórnarstefnu. Ásdís mun vinna þvert á fyrirtækið í ýmsum verkefnum sem snúa til dæmis að stafrænni þróun málaflokksins, upplýsingaöryggi og persónuverndarmálum.

Ásdís starfaði síðast sem skjalastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Áður var hún skjalastjóri hjá Íslandsbanka, skrifstofu Alþingis og fjármálaráðuneytinu. Þá hefur hún starfað sem ráðgjafi og ritstjóri hjá forsætisráðuneytinu, sem stundakennari og skjalavörður við Háskóla Íslands, sem skjalalesari á skrifstofu Alþingis ásamt því að vera sjálfstætt starfandi prófarkalesari og ritstjóri. 

Ásdís er með meistarapróf í bókasafns- og upplýsingafræði frá Graduate School of Library & Information Science Simmons College í Boston og BA-próf í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands. Þá er hún með diplóma í lýðheilsufræðum á meistarastigi frá Háskóla Íslands.

„Það er frábært að hefja störf hjá Póstinum á þessum tímapunkti, fyrirtækið er í mikilli sókn og spennandi tímar framundan. Ég hlakka til að takast á við fjölbreytt verkefni sem við þurfum að ráðast í á sviði skjalastjórnar. Af nógu er að taka en ég legg áherslu á stafræna þróun og að fyrirtækið tileinki sér fagleg vinnubrögð sem styðja starfsmenn við störf sín og styrkja þannig fyrirtækið,“ segir Ásdís í fréttatilkynningu Póstsins.

„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Ásdísi til liðs við okkur. Hún hefur mikla reynslu og ég veit að hún mun reynast okkur mjög vel í öllum þeim stóru verkefnum sem framundan eru. Við þurfum að nýta tæknina enn betur en áður og taka þessi mál fastari tökum en við höfum gert. Það er í mörg horn að líta og við hlökkum sannarlega til að fara í þessa vegferð með Ásdísi í fararbroddi,“ segir Sigríður Indriðadóttir, mannauðsstjóri Póstsins.