„Þótt bankarnir þrír séu litlir í erlendum samanburði eru þeir of-stórir-til-að-falla fyrir Ísland. Það myndi minnka verulega áhættu þjóðarinnar af fjármálakerfinu ef bankarnir yrðu undir eftirliti og ábyrgð yfirþjóðlegra stofnana og gefa heilbrigðari starfshvata.“ Þetta sagði Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og lektor við Háskóla Íslands í erindi sínu við kynningu á skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið á Grand hótel Reykjavík í dag.

Þar kynnti Ásgeir þann hluta skýrslunnar sem fjallar um efnahags- og peningamál en hann gefur lítið fyrir gagnrýni um að myntskipti séu hægt ferli sem tekur langan tíma til að hafa áhrif og segir að gjaldeyrismarkaðir séu framsýnir og að væntingar um myntskipti hafi strax áhrif á þá markaði.

„Til að geta gengið í Evrópska myntsvæðið þá þurftum við að uppfylla Maastricht skilyrðin auk þess sem við þurfum að tengjast evrunni í gegnum ERM-II fastgengiskerfið. Átta smáríki hafa tekið þátt í ERM-II ferlinu og sex þeirra hafa lokið því og tekið upp evru að fullu.Til að taka upp gjaldmiðil þá þarf aðlögun að eiga sér stað. Þú setur ekki keppanda í Biggest Loser í maraþon strax. Til að geta tekið mynt upp þá þarf þjóð tíma til þess að aðlagast. Það skiptir gríðarlega miklu máli á hvaða gengi þjóð gengur inn í aðra mynt. Þess vegna er mikilvægt að tími sé tekinn til aðlögunar,“ sagi Ásgeir.