Mike Ashley, eigandi breska knattspyrnuliðsins Newcastle hefur hætt við að selja félagið eins og til stóð og þess í stað ákveðið að setja sjálfur 20 milljónir punda í rekstur þess í næstu viku.

Frá þessu er greint á vef BBC í dag. Ashley hafði sett félagið á sölu og vildi fá fyrir það um 80 milljónir punda. Að sögn BBC sýndu einhverjir félaginu áhuga en enginn bauð þó svo hátt í félagið. Ashley keypti Newcastle fyrir 134,4 milljónir punda árið 2007.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Ashley reynir að selja félagið. Hann setti félagið á sölu í september í fyrra en hætti við í desember. Þá setti hann það á sölu í vor en hefur nú hætt við í annað sinn.

Ashley hyggst þó auka tekjur félagsins, með því að selja einkaréttinn á notkun nafnsins St. James‘ Park, sem verið hefur heimavöllur liðsins frá árinu 1892. Völlurinn er elsti en jafnframt stærsti knattspyrnuvöllurinn í NA hluta Englands og verður meðal annars notaður á Ólympíuleikunum árið 2012. Nafnið verður í raun sett á uppboð, þannig að það fyrirtæki sem er tilbúið að greiða sem hæst fær að nefna leikvanginn eftir sér.

Fjölmiðlar í Bretlandi eru þó efins um að stuðningsmenn Newcastle taki vel í það að breytt verði um nafn á leikvanginum.

„Ég á eftir að sjá það fyrir mér að stuðningsmennirnir fari að kalla leikvanginn eftir einhverju fyrirtæki,“ segir John Murray, knattspyrnusérfræðingur BBC.

Þess má geta að félagi í eigu Ashley, Sport Direct International, einn stærsti sportvörusmásali Bretlands , flutti öll viðskipti sín til Kaupþings S&F vorið 2008, um hálfu ári áður en bankinn var tekinn yfir af breskum stjórnvöldum.

Sjá nánar umfjöllun BBC um málefni Newcastle.