*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 18. september 2019 09:27

Asísk félög bjóði beint flug

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, telur augljóst að það verði af beinu flugi frá Asíu til Keflavíkur.

Ritstjórn

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, telur augljóst að það verði af beinu flugi frá Asíu til Keflavíkur. Félagið hefur verið í viðræðum við ýmis flugfélög vegna þessa.

„Við höfum ekki viljað gefa upp hvaða félög við erum í viðræðum við, flugfélögin hafa lagt áherslu á það. [...] Við sjáum möguleika á að fá hingað flugfélög þaðan þar sem félög frá Asíu gætu síðan notað Keflavík sem tengistöð. Það er stór ákvörðun að hefja flug milli Asíu og Íslands. Þetta eru löng flug og meiri áhætta fyrir flugfélögin, þannig að það er ekki skrítið að það taki langan tíma að komast að niðurstöðu um þetta,“ segir Sveinbjörn í viðtali við Markaðinn.

Í viðtalinu ræðir Sveinbjörn einnig hugmyndir sem uppi eru um að breyta Isavia. Meðal annars verði rekstri innanlandsflugvalla, sem byggja á þjónustusamningi við ríkið, og flugleiðsögu aðskilin frá rekstri tengdum Keflavíkurflugvelli.

Undanfarið hefur staðið yfir uppbygging á Keflavíkurflugvelli og frekari uppbygging er í kortunum. Viðbúið er að á næstu þremur árum þurfi að verja um 30 milljörðum til hennar og heildarkostnaður gæti numið rúmlega 100 milljörðum.

„Það er okkar mat að það sé ekki stórkostlega erfitt að sækja fjármagn til þeirra verkefna sem fram undan eru á Keflavíkurflugvelli. Það eru hins vegar mikil verðmæti fólgin í því að fá inn fjárfesta sem hafa þekkingu á þessu sviði frekar en að horfa einvörðungu á fjármagnið sem slíkt. Það er auðveldara að sækja fjármagnið en þekkinguna. Ef það kæmi hér inn erlendur fjárfestir sem sérhæfir sig í að fjárfesta í alþjóðlegum flugvöllum þá kemur með honum mikil þekking sem væri mjög jákvæð fyrir okkur,“ segir Sveinbjörn við Markaðinn.

Stikkorð: Isavia