Kvöldið fyrir forsetakosningar verður Sjónvarpið með umræðuþátt sem öllum þremur forsetaframbjóðendunum hefur verið boðið að taka þátt í. Verða það að líkindum einu opinberu umræðurnar sem frambjóðendurnir taka allir þátt í fyrir kosningar.

Í þessari viku hefur Útvarpið haft á dagskrá klukkutímaþátt helgaðan hverjum frambjóðanda fyrir sig. Fyrsti þátturinn féll reyndar niður þar sem Ólafur Ragnar Grímsson hafði ekki tök á að mæta í þáttinn. Síðasti þátturinn er á Rás 2 í dag eftir fréttir klukkan 16.

Næst komandi laugardagskvöld verður þáttur í Sjónvarpinu þar sem rætt er við frambjóðendur hvern í sínu lagi. Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í næstu viku verður svo 25 mínútna viðtal við hvern þeirra um sig í Sjónvarpinu eftir fréttir klukkan 22.

Sem fyrr segir hefur frambjóðendum verið boðið til lokaþáttar kvöldið fyrir kjördag. Að sögn Boga Ágústssonar, forstöðumanns fréttasviðs Ríkisútvarpsins, hefur enginn frambjóðendanna boðað forföll í þann þátt.