Lýsing hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna greinar Viðskiptablaðsins um gengislánadóma:

„Ályktanir Viðskiptablaðsins 15. nóvember 2012 um fordæmi dóma fyrir samninga Lýsingar hf. byggjast á misskilningi. Ekki var haft samband við Lýsingu hf. áður en greinin var birt.

Almennt verður að gjalda varhug við staðhæfingum um fordæmisgildi dóma í undirrétti. Í umræddu máli Samvirkni gegn Landsbankanum hefur héraðsdómarinn jafnframt leiðrétt villur í dóminum eftir birtingu hans.

Þótt gera megi ýmsar athugasemdir við fullyrðingar í grein Viðskiptablaðsins skiptir mestu að komist er að þeirri niðurstöðu að Lýsing hafi rétt fyrir sér að því leyti að notuð er önnur reikniaðferð í héraðsdóminum en í Hæstaréttardóminum í Borgarbyggðarmálinu (464/2012). Í framhaldi af því segir hins vegar að sú aðferð sem „Hæstiréttur notar í máli Frjálsa Fjárfestingabankans“ (600/2011) sé svipuð aðferð héraðsdómarans. Sú reikniaðferð, sem vísað er til, var skýrð nánar í Borgarbyggðarmálinu. Ekki er um það að ræða að notaðar séu mismunandi aðferðir í þessum tveimur málum, eins og ráða má af umfjöllun blaðsins, enda hlýtur Hæstiréttur að verða að leggja til grundvallar sömu aðferð við mat á því hvort fjárhæð teljist umtalsverð, a.m.k. á meðan málsaðilar mótmæla ekki þeirri reikniaðferð.

Í umræddum héraðsdómi er þess vegna ekki fylgt aðferð Hæstaréttar við mat á því hvort fjárhæð teljist umtalsverð, þrátt fyrir að sérstaklega sé vísað til þess í forsendum héraðsdómsins að það hafi verið ætlunin.

Til viðbótar er rétt að hafa í huga að í þeim dómsmálum sem nefnd eru hér að ofan settu fjármálafyrirtækin ekki fram kröfur um tilteknar útreikningsaðferðir. Að öðru leyti vísar Lýsing hf. í fréttatilkynningu félagsins um umræddan dóm héraðsdóms á heimasíðu félagsins www.lysing.is.“