Í Viðskiptablaðinu í dag er greint frá áformum um skilmálabreytingar á íbúðabréfum og rætt við Sigurð Erlingsson, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs (Íls). Í kjölfar útgáfu Viðskiptablaðsins í dag ákvað Kauphöllin að stöðva viðskipti með fjóra skuldabréfaflokka Íbúðalánasjóðs. Viðskipti hófust klukkan 10:20. Sjóðurinn sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem segir:

„Vegna fréttar í Viðskiptablaðinu í morgun um málefni Íbúðalánasjóðs vill Íbúðalánasjóður koma eftirfarandi á framfæri:


• Af frétt Viðskiptablaðsins má ráða að Íbúðalánasjóður vinni að því að breyta skilmálum útgefinna skuldabréfa sjóðsins. Slíkt er ekki framkvæmanlegt og verður aldrei gert án samstarfs við eigendur bréfanna. Það er rangt að Íbúðalánasjóður vinni að slíkum breytingum.


• Fyrirætlanir sjóðsins varðandi útgáfu fjármögnunarbréfa hans í formi nýrra flokka til framtíðar byggja á því að sú fjármögnun verði uppgreiðanleg.“

Viðskiptablaðið vill koma eftirfarandi á framfæri:

Blaðamaður Viðskiptablaðsins og Sigurður Erlingsson ræddust við í drjúga stund sl. þriðjudag í tilefni af úttekt Viðskiptablaðsins um erfiða stöðu Íbúðalánasjóðs. Stór hluti samtalsins snéri að skilmálum íbúðabréfa um að þau mætti ekki greiða upp. Sigurður var skýr í máli um vanda sjóðsins vegna neikvæðs vaxtamunar sem erfitt væri að bregðast við vegna þess að íbúðabréfin væru óuppgreiðanleg. Stærsta mál sjóðsins væri að fá því breytt.

Spurður um hvort eigendur bréfanna myndu tapa eða taka á sig högg við breytingarnar sagði hann svo ekki vera. Ekki væri verið að ræða neitt sem fæli í sér að kröfuhafar tækju á sig högg.

Einnig kom fram í máli hans að þetta væri til skoðunar og „í undirbúningi að breyta“.

Skilningur blaðamanns var að þarna væri rætt um útistandandi bréf en ekki framtíðarútgáfur, enda snýr vandi sjóðsins í dag að útistandandi bréfum og óuppgreiðanleika þeirra en ekki skuldabréfum framtíðarinnar. Íls hefur átt í erfiðleikum með að koma peningum í vinnu; lausafé nemur um 50 milljörðum og engin útgáfa hefur verið síðan í janúar.

Þá þótti blaðamanni ljóst að þegar rætt var um mögulegt tap kröfuhafa að þá snéri það að útistandandi bréfum, enda geta kröfuhafar vart tapað á bréfum sem ekki eru til. Hvergi kom fram í samtalinu að rætt væri um framtíðarútgáfur.

Í Viðskiptablaðinu segir að innan Íbúðalánasjóðs sé unnið að breytingum skilmála. Íbúðalánasjóður segir að slík vinna sé ekki í gangi. Skilmálabreytingar séu ekki framkvæmanlegar á útistandandi íbúðabréfum og verði ekki gerðar án samstarfs við eigendur.

Sigurður Erlingsson sagði í samtali við Viðskiptablaðið í morgun að ekki hefði verið rætt um útistandandi bréf heldur útgáfur í framtíðinni.Þar liggi misskilningur milli hans og blaðamanns.