Árið 1994 starfaði Jón Sigurðsson, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar, sem viðskiptafulltrúi á vegum Útflutningsráðs Íslands í New York. Þá voru tvö ár í að hann yrði ráðinn forstjóri Össurar.  „Þá var ég að hjálpa íslenskum fyrirtækjum að koma ár sinni fyrir borð í Bandaríkjunum. Það voru fyrirtæki eins og 66° Norður, Borgarplast og Marel. Þetta voru fyrirtæki sem voru að hasla sér völl," segir Jón og bendir á að þessi fyrirtæki hafi verið að flytja vörur út. Jón er svo ráðinn forstjóri Össurar 1996. Hann segir að þá hafi um fimmtíu manns starfað hjá Össuri. „Nú erum við um 2300 þannig að það hefur nú gerst æði mikið. Ætli veltan þá hafi ekki verið um þrjár milljónir dollarar. Nú, í ár, erum við með um 500 milljónir dollara í veltu þannig að það hefur náttúrlega gríðarlega mikið breyst. Þetta er ekkert sama fyrirtækið," segir Jón.

Þegar Jón er spurður út eftirminnilegasta atburðinn á þessum tíma nefnir hann kaup Össurar á Flex-Foot. „Það voru eiginlega svona fyrstu stóru fyrirtækjakaupin erlendis," segir Jón og bætir við að Flex-Foot hafi verið keypt 2000. Jón segir að skráning Össurar á hlutabréfamarkað 1999 hafi líka verið eftirminnileg. „Fyrst eftir að við fórum á hlutabréfamarkað á Íslandi þá var okkur vel tekið og okkur gekk vel," segir Jón. En síðan nokkrum árum seinna þá hafi dæmið alveg snúist við. Þá hafði markaðurinn haft ákaflega lítinn áhuga á "rekstrarfélögum" og hafi haft miklu meiri áhuga á bönkum og fjárfestingafélögum . „Það var dálítið sérstök upplifun og það var þá sem erlendir aðilar keyptu meirihlutann í Össuri," segir Jón.

Viðtalið við Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, birtist í afmælisriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum.