Atlantic Shipping A/S bauð lægst þeirra fimm félaga sem skiluðu inn tilboði í Freyju, nýtt varðskip Landhelgisgæslunnar, en tilboð voru opnuð í gær.

Fimm tilboð bárust, fjögur frá erlendum félögum og eitt frá íslensku félagi, C-solutions ehf. sem er nær alfarið í eigu Benedikts Jóns Þórðarsonar samkvæmt vef fyrirtækjaskrár. C-solutions bauð 1,49 milljarða króna í skipið. Erlendu félögin eru Atlantic Shipping A/S sem bauð 1,1 milljarð króna, Maersk Supply Service A/S, sem bauð 10 milljónir dollara eða um 1,2 milljarða króna, United Offshore Support GmbH sem bauð 1,75 milljarða króna og Havila Shipping ASA, sem bauð 13,6 milljónir evra eða um 2 milljarða króna,

Á vef Landhelgisgæslunnar segir að nú sé unnið að því að meta tilboðin. Gert er ráð fyrir að skipið verði komið til landsins fyrir næsta vetur og verði það fyrsta sem ber kvenmannsnafn, en hingað til hafa skip Landhelgisgæslunnar öll borið karlmannsnöfn úr norrænni goðafræði.