Tap Atorku eftir skatta á þriðja ársfjórðungi ársins nam 2,3 milljörðum króna þannig að tap eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins var því 6,3 milljarðar króna. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Atorku í kvöld. Þar kemur fram að heildareignir í lok september voru 58,2 milljarðar króna og eigið fé var 14,6 milljarðar króna í lok september. Eiginfjárhlutfall í lok september var um 25,1% Í tilkynningu Atorku kemur fram að við lok þriðja ársfjórðungs er unnið að endurfjármögnun skulda félagsins í samvinnu við viðskiptabanka félagsins. Þá hefur hluthafafundur einnig samþykkt afskráningu félagsins úr Kauphöllinni og verður félagið afskráð þann 5. desember næstkomandi. Erfitt fyrir fyrirtæki að sækja sér fé „Aðstæður á fjármálamörkuðum sem og efnahagsástand almennt er verulega erfitt og búist er við samdrætti í mörgum af stærstu hagkerfum heimsins, segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku í tilkynningunni. „Þetta leiðir til þess að það er erfiðara en ella að spá fyrir um afkomu fyrirtækja.“ Magnús segir einnig að aðgangur að fjármagni hefur minnkað gríðarlega sem geri fyrirtækjum erfitt fyrir að sækja sér fé. „Þetta hefur áhrif á fjármagnskostnað og möguleika til vaxtar og endurfjármögnunar,“ segir Magnús í tilkynningunni. „Ástandið á Íslandi er óvenjulegt og litast af mikilli óvissu eftir hrun bankakerfisins. Þessi óvissa endurspeglast í fjármálagerningum sem félagið hefur gert við viðskiptabanka sína til að lágmarka gjaldeyrisáhættu. Þessu til viðbótar hefur gengi krónunnar fallið gríðarlega það sem af er árinu sem veldur því að efnahagsreikningur félagsins stækkar þrátt fyrir töluverða eignasölu.“ Hafa undirbúið sig undir erfiða tíma Þá segir Magnús að félagði hafi síðustu misseri búið sig undir erfiða tíma. Þannig hafi félagið lokið sinni stærstu fyrirtækjasölu til þessa um mitt síðasta ár og framlengt lánasamningum. „Atorka hefur síðasta árið selt verulega af eignum sínum og greitt niður skuldir og þannig undirbúið félagið fyrir erfiðara efnahagsumhverfi. Það sem gerðist í byrjun október með hruni íslenska bankakerfisins var þó mun meira áfall en nokkur gat séð fyrir. Með lungað af sínum fjárfestingum í vel reknum rekstrarfélögum er félagið betur í stakk búið að bregðast við þessum hamförum en ella og mun Atorka áfram styðja við uppbyggingu kjarnafjárfestinga sinna til framtíðar,” segir Magnús í tilkynninni. Sjá uppgjörstilkynningu Atorku.