Skortstöður hafa verið teknar gegn átta félögum í Kauphöll Íslands frá því í byrjun febrúar. Þetta kemur fram í svari Fjármálaeftirlits Seðlabankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Alls bárust eftirlitinu fjórar tilkynningar í febrúar um skortstöður, þrettán í mars og fjórar það sem af er apríl.

Um miðjan mars voru tilkynningarskyld mörk skortstöðu lækkuð úr 0,2% í 0,1%. Tilkynna þarf sérstaklega í hvert sinn sem skortstaða eykst um 0,1%. Skortstöðurnar fóru þó ekki yfir 0,5% af skráðu hlutafé en tilgreina þarf slíkt opinberlega. Með skortstöðu er veðjað á að hlutabréfaverð einstaka félaga lækki.

Innlausnir úr verðbréfasjóðum ekki áhyggjuefni enn

Jafnframt var spurt um umfang innlausna úr verðbréfasjóðum. Fjármálaeftirlitið segir að talsvert flökt hafi verið á nettó innlausnum einstakra sjóða. Umfang sé þó ekki svo mikið að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana. Eftirlitið hefur að undanförnu kallað eftir daglegum upplýsingum um nettó innlausnar í sjóðum stærstu rekstrarfélaga sem heyra undir eftirlitið. Markmiðið sé að meta lausafjáráhættu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, skammtímafjármögnun fjármálastofnana og flökt á verðbréfamarkaði.