Ekkert fékkst upp í 807,3 milljóna króna kröfur í þrotabú ATLEI ehf. sem áður hét Atlantseignir ehf., en skiptum í búinu lauk 29. júlí síðastliðinn. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007, sem er síðasti ársreikningur félagsins sem liggur fyrir, var eigandi félagsins TransAtlantic Lines LLC, bandarískt félag í eigu Símonar Kjærnested.

Árið 2006 fékk Atlantseignir úthlutað lóð við Óseyrarbraut í Hafnarfirði, en lóðin átti upphaflega að afhendast systurfélaginu Atlantsskip-Evrópu ehf. Fjarðarpósturinn greindi svo frá því í fyrra að Atlantseignir hefðu reynt að skila lóðinni með skilyrtri veðbandslausn Landsbankans, en hafnarstjórn taldi sér ekki fært að fallast á það.