Átta nýir aðilar gengið til liðs við Nordic Exchange og þrettán hafa útvíkkað aðild sína til fleiri markaða til að njóta þeirra kosta sem OMX Nordic Exchange kauphallaraðild býður upp á. Þetta kemur fram í frétt frá Kauphöllinni.

?Það er ánægjulegt að sjá að stöðugt meiri áhuga er á beinum aðgangi að viðskiptum í Nordic Exchange meðal verðbréfafyrirtækja jafnt innan sem utan Norðurlandanna. Okkur hefur tekist að skapa svo stóran markað að við erum nú leiðandi á mörgum sviðum, þar á meðal í pappírsiðnaði, tísku og upplýsingatækni,? segir Jukka Ruska, forstjóri OMX Nordic Marketplaces.

Í sumar gekk verðbréfafyrirtækið All Options B.V. í Amsterdam til liðs við Nordic Exchange í Stokkhólmi og Helsinki. "Í dag bjóðum við einnig Norwegian Artic Securities ASA velkomið sem nýjan aðila í Stokkhólmi. Í september verða Flow Traders í Amsterdam níundi nýi aðilinn að Nordic Exchange með aðild sinni að danska, finnska og sænska markaðnum," segir í fréttinni.

Enn fremur hafa BNP Paribas í París og IMC í Amsterdam, sem voru þegar aðilar í Stokkhólmi og Helsinki, útvíkkað aðild sína þannig að hún nær nú einnig til danska markaðarins. Í júlí útvíkkuðu fjárfestingarbankinn Saga Capital hf. og NordVest verðbréf hf. á Íslandi aðild sína þannig að hún næði til Stokkhólms og Helsinki. Van der Moolen hefur haft aðgang að finnska markaðnum og útvíkkaði í júlí aðild sína til sænska hlutabréfamarkaðarins. Í síðastliðinni viku gekk félagið til liðs við danska markaðinn og mun brátt bæta íslenska markaðnum við. EIK Bank A/S í Kaupmannahöfn útvíkkaði aðild sína til Íslands í júlí og til OMX Nordic Exchange í Stokkhólmi frá og með 2. ágúst 2007.

Enn fremur stefnir All Options að því að víkka starfsemi sína þannig að innan skamms nái hún einnig til danska hlutabréfamarkaðarins.

Í dag eru 162 bankar og verðbréfafyrirtæki sem eiga viðskipti á einum eða fleiri mörkuðum OMX Nordic Exchange.