Atvinnuleysistölur í Grikklandi hafa aldrei verið svartari en nú, samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu landsins. Atvinnuleysi mældist 25,1% í júlí og eru um 1,26 milljónir Grikkja án atvinnu.

Ástandið er verst meðal yngstu kynslóðarinnar, fólks á aldrinum 15 til 24 ára. Atvinnuleysi meðal þess hóps mælist 54,2%. Tekið er fram í umfjöllun BBC að þar eru þeir einnig taldir sem stunda nám.

Í júnímánuði mældist atvinnuleysi í landinu 24,8%. Í júlí 2008, um ári áður en fjárhagsvandræði Grikklands hófust fyrir alvöru, voru um 364 þúsund manns á atvinnuleysisskrá.