*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Innlent 16. júní 2019 14:05

Atvinnuleysi kerfisbundið vanmetið

Þær tvær tölur sem reglulega eru gefnar út um atvinnuleysi – mælt og skráð – vanmeta báðar raunverulegt umfang atvinnuleysis

Júlíus Þór Halldórsson
Haraldur Guðjónsson

Fréttir berast nú reglulega af uppsögnum fyrirtækja, enda er því nú spáð að hagkerfið muni dragast saman á þessu ári, eftir mikinn uppgang síðustu ár. Eins og við má búast hefur skráð atvinnuleysi farið nokkuð hratt vaxandi, en á sama tíma hefur mælt atvinnuleysi lækkað lítillega. Erfitt hefur reynst að ná til vissra hópa við framkvæmd kannana, með þeim afleiðingum að atvinnuleysi er að öllum líkindum vanmetið.

Atvinnuleysi er í grunninn einfalt hugtak. Sá sem vill vinna, en hefur ekki fundið sér starf, telst atvinnulaus, og hlutfall atvinnulausra af heildarfjölda á vinnumarkaði, mælt í prósentum, er í daglegu tali kallað atvinnuleysi. Það er síðan mælt og birt, og niðurstaðan notuð til viðmiðunar í allskyns ákvarðanatöku við hagstjórn, auk þess að vera ein mikilvægasta stærðin í þjóðmálaumræðu um efnahagsmál. Mæling þess og skilgreining er þó ekki jafn einföld og hún kann að virðast.

Hagstofan framkvæmir reglulega vinnumarkaðskönnun, sem fer þannig fram að tekið er 1.500 manna slembiúrtak úr Þjóðskrá sem reynt er að hafa samband við, og þáttakendur spurðir út í stöðu þeirra á vinnumarkaði. Þeim sem ekki eru í Þjóðskrá er vísvitandi sleppt úr könnuninni, þar sem þeir teljast til svokallaðs skammtímavinnuafls.

Áhrif Wow air skýr

Atvinnuleysi mældist 4,0% í apríl síðastliðnum samkvæmt Hagstofunni, og hækkaði um 1,1 prósentustig frá því í mars. Skekkjumörkin eru 1,5%. Það er allveruleg hækkun á svo stuttum tíma, en hún var kannski ekki með öllu óviðbúin eftir gjaldþrot Wow air í lok mars, sem svipti um 1.000 manns vinnunni á einu bretti.

Skráð atvinnuleysi, sem Vinnumálastofnun heldur utan um, nam 3,7% í apríl, en hækkaði heldur minna en mæling Hagstofunnar, eða um hálft prósentustig, frá því í mars.

Atvinnuleysi er í eðli sínu sveiflukennd stærð, sem tími árs getur haft töluverð áhrif á – námsmenn flykkjast út á vinnumarkaðinn eftir að prófum lýkur á vorin, sem dæmi – og því gefur Hagstofan einnig út árstíðaleiðrétt atvinnuleysi, en það hlutfall nam 2,9% í aprílmánuði og var óbreytt frá því í mars.

Skráð atvinnuleysi hækkar mikið milli ára, en mælt lækkar

Þegar horft er á breytingar milli tímabila er einnig gjarnan leiðrétt fyrir árstíðasveiflum með því að horfa til breytingar frá sama tímabili árið áður. Eins og við má búast í versnandi efnahagslegu árferði nemur árshækkun skráðs atvinnuleysis nú 1,4 prósentustigum, úr 2,3% í apríl í fyrra, í 3,7% í ár. Á meðan hefur atvinnuleysismæling Hagstofunnar hins vegar farið lækkandi. Mælt, óleiðrétt atvinnuleysi lækkaði um 0,6% milli aprílmánaða 2018 og 2019.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér