Samkvæmt hagtölum Eurostat hjá Evrópusambandinu hefur atvinnuleysi vaxið jafnt og þétt í sambandsríkjunum frá júlíbyrjun 2008. Í löndunum 27 hefur atvinnuleysi vaxið að meðaltali úr 7% í 8,9% og virðist enn lítið lát vera á. Ef litið er á 16 evrulönd hefur atvinnuleysið aukist enn meira að meðaltali, eða úr 7,5% í 9,4%.

Það eru hins vegar Norðmenn sem státa af besta atvinnuástandinu í álfunni, en þeir standa reyndar utan Evrópusambandsins. Þar jókst atvinnuleysið frá júlí 2008 aðeins úr 2,4% í 3,1% til maíloka 2009, en tölur liggja ekki fyrir um stöðuna í júní. Nýjustu fregnir þaðan benda til þess að þar ríki nú helst ótti við of mikla þenslu í efnahagslífinu.

Ástandið er verst á Spáni þar sem atvinnuleysið í lok júní mældist um 18,1%, en það var 11,4% í júlí 2008. Aukning atvinnuleysis hefur þó orðið langmest í Eistlandi þar sem atvinnuleysið hefur rokið úr 5,8% í 17% á einu ári. Ástandið í Lettlandi er þó ekki betra, en þar jókst atvinnuleysið úr 6,9% í júlí 2008 í 17,2% í júnílok á þessu ári. Nágrannaríkið Litháen er á svipuðu róli, en þar jókst atvinnuleysið á einu ári úr 5,8% í 15,8%.

Af Evrópusamabandsríkjunum er Holland með best atvinnuástand, en þar hefur atvinnuleysið einungis aukist úr 2,7% í 3,3% á einu ári. Austurríki kemur þar fast á eftir, en þar jókst atvinnuleysið úr 3,7% í 4,4%. Þá kemur Kýpur, en þar jókst atvinnuleysið aðeins úr 3,6% í 5,4% á einu ári.