Atvinnuleysi meðal ungs fólks á Ítalíu eykst enn. Um þessar mundir eru alls 43,7 prósent fólks á aldrinum 15 til 24 ára á atvinnuleysisskrá. Þessu greinir RÚV frá.

Hærra atvinnuleysi hjá aldurshópnum hefur ekki mælst síðan árið 1977. En það ár var byrjað að taka saman upplýsingar um atvinnuleysið á hverjum ársfjórðungi fyrir sig, að því er segir í frétt frá ítölsku fréttastofunni ANSA.

Pier Carlo Padoan efnahagsmálaráðherra segir stöðuna óviðunandi. Hann segir þó örlitla von fylgja því að þegar litið er til allra aldurshópa fækkar örlítið á atvinnuleysisskránni.

Atvinnuleysið á Ítalíu dróst örlítið saman milli mánaða var 12,6 prósent í maímánuði síðastliðnum og 12,3 prósent í júní. Tölur fyrir júlí hafa hafa þó enn ekki verið birtar.