Norðurlöndin eru ofarlega á blaði þegar samkeppnishæfni þjóða heims er borin saman. Þrátt fyrir að eiga margt sameiginlegt byggist árangur þeirra þó á ólíkum þáttum. Góður árangur Íslands byggist öðru fremur á skilvirkni atvinnulífs, en þar var Ísland í 2. sæti í heiminum á árunum 2005-2007, segir í frétt frá Samtökum Atvinnulífsins.

Þegar á hinn bóginn er litið til mælikvarðans skilvirkni stjórnvalda er árangur Íslendinga í meðallagi miðað við önnur ríki Norðurlanda og árangur okkar á sviði stofnanaumgjarðar er lakastur. Skýrist það m.a. af slakri grunngerð almennt, tiltölulega litlum útflutningi á hátæknivörum og takmörkuðum árangri á sviði vöruþróunar.

Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu dr. Helgu Kristjánsdóttur, við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands um samkeppnishæfni Norðurlandanna en í henni er m.a. stuðst við gögn IMD viðskiptaháskólans. Fram kemur skýrt í skýrslunni að Íslendingar geti enn bætt árangur sinn hvað varðar alþjóðlega samkeppnishæfni og þar með aukið verðmætasköpun og velferð.