*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 9. nóvember 2017 09:03

Auðmenn skoða að flytja úr landi

Fólk fundar með ráðgjöfum um hvernig hægt sé að komast undan greiðslu auðlegðarskatts sem hefur verið til umræðu.

Gunnar Dofri Ólafsson
Aðsend mynd

Fólk fundar með ráðgjöfum um hvernig hægt sé að komast undan greiðslu auðlegðarskatts sem hefur verið til umræðu. Eina löglega leiðin er flutningur úr landi. Flutningurinn þarf þó að vera raunverulegur en ekki aðeins á pappír.

Hugmyndir um „hóflegan auðlegðarskatt“ upp á 1,5% eins og sá sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG), talaði um í Viðskiptablaðinu skömmu fyrir kosningar gætu sett nokkuð háan verðmiða á að búa á Íslandi – í það minnsta fyrir þá allra eignamestu.

Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að einstaklingar sem eiga hreina eign sem hleypur á milljörðum – jafnvel tugum milljarða – skoði í fullri alvöru að flytja úr landi verði auðlegðarskattur lagður á. Fólk hafi þegar fundað með ráðgjöfum vegna þessa. Fjöldi þeirra sem veltu upp þessum möguleika hljóp að sögn kunnugra á tugum strax í nýafstaðinni kosningabaráttu.

Þó svo að 1,5% skattur virðist hóflegur eru 1,5% af tíu milljörðum eftir sem áður 150 milljónir. Fyrir einhvern í þeirri stöðu, sem hefur óneitanlega mikið milli handanna, myndi íbúð í Lundúnum og flutningur þangað borga sig á einu ári.

Ólíkt stöðunni sem var eftir hrun

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að glettilega margir velti því nú fyrir sér hvaða leiðir sé hægt að fara til að komast hjá því að greiða þann auðlegðarskatt sem hefur verið til umræðu. Eina leiðin til þess er að flytja lögheimili, skattalega heimilisfesti og mögulega allar eignir af landi brott. Lærdómurinn af auðlegðarskattinum sem var við lýði árin eftir hrun er að sögn sá að þetta sé eina leiðin til að komast hjá því að greiða auðlegðarskatt.

Á þeim árum var staðan hins vegar nokkuð ólík þeirri sem er uppi í dag þar sem fjármagnshöftin sem komu í veg fyrir útflæði eigna frá landinu eru ekki lengur í gildi. Skatturinn eins og hann var á þeim tíma var auk þess lagður þannig á að erlendir skattaðilar, sem áttu eignir á Íslandi, gátu þurft að greiða auðlegðarskatt af þeim eignum sínum hérlendis, óháð skattalegri heimilisfesti.

Þeir sem eru ef til vill í erfiðustu stöðunni í þessu tilliti eru að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins þeir sem eiga umtalsverðar eignir en standa til dæmis í rekstri hér á landi og geta ekki með góðu móti skorið á öll tengsl við heimalandið og farið af landi brott. Því má segja að auðlegðarskattur á borð við þann sem hefur verið til umræðu – með „mjög háu frítekjumarki“ sem gæti verið 100-200 milljónir, komi verst við „eignaminnsta“ stóreignafólkið ef svo má að orði komast.

Gæti orðið af fjármagnstekjuskatti

Þeir sem Viðskiptablaðið ræddi við sögðu einséð að með álagningu auðlegðarskatts myndi ríkið tapa öðrum skattstofnum ef auðmenn grípa til þess ráðs að flytja eignir sínar úr landi. Ber þar fyrst að nefna skatt af fjármagnstekjum, en skatttekjur ríkisins af arðgreiðslum fyrirtækja til einstaklinga og aðrir fjármagnstekjuskattar á rentu af þessum eignum er þónokkur. Ef tíu milljarða eignir bera fjögurra prósenta vexti á ári skilar 20% fjármagnstekjuskattur ríkissjóði 80 milljónum króna. Þessu til viðbótar er líklegt að veltuskattar á borð við virðisaukaskatt skili ríkissjóði þónokkrum tekjum af veltu hinna auðugustu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.