*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Erlent 11. mars 2021 12:35

Auður Buffett yfir hundrað milljarða dala

Einungis Jeff Bezos, Elon Musk, Bill Gates og Bernard Arnault eru fyrir ofan Warren Buffett á lista Forbes yfir milljarðamæringa.

Ritstjórn
Warren Buffett
Gunnhildur Lind Photography

Auður Warren Buffett fór yfir hundrað milljarða dala í fyrsta sinn í gær. Einungis fjórir aðrir eiga meiri auðæfi en Buffett samkvæmt lista Forbes yfir milljarðamæringa heims. 

Auðæfi Buffett kemur að nær öllu leyti frá eignarhlut hans í fjárfestingarfélaginu Berkshire Hathaway. Hann á um 15% af hlutabréfum Berkshire í A-flokki en gengi þeirra fór yfir 400 þúsund dali í fyrsta sinn í gær. 

Buffett, sem var um tíma ríkasti maður heims, tók við Berkshire árið 1965 en félagið var þá vefnaðarfyrirtæki. Berkshire á í dag meira en níutíu fyrirtæki og hlutabréf í eignasafni fjárfestingafélagsins voru 281 milljarður dala að andvirði í árslok 2020, að því er kemur fram í frétt Reuters

Jeff Bezos, stofnandi Amazon, trónir á toppi listans með nærri 180 milljarða dala auðæfi. Á eftir honum kemur Elon Musk, stofnandi Tesla, með 165 milljarða dala. Bernard Arnault og fjölskylda, sem standa að baki tískusamsteypunnar LVMH, eru í þriðja sæti með 160 milljarða dala. Bill Gates, sem var lengi efstur á listanum, situr í dag í fjórða sæti en auður hans er metinn á 125 milljarða dala. 

Buffett hefði líklega náð hundrað milljarða dala markinu fyrr en hann hefur frá árinu 2006 gefið hlutabréf í Berkshire Hathaway að andvirði 37 milljarða dala til góðgerðamála, þar á meðal til Bill & Melinda Gates Foundation.