*

sunnudagur, 20. júní 2021
Erlent 13. október 2016 09:08

Auðurinn jókst um 820% milli ára

Hástökkvarinn á lista yfir ríkustu Kínverjanna fór í 4. sætið. Milljarðamæringar landsins eru fleiri en í Bandaríkjunum.

Ritstjórn

Árlegur listi Kína yfir ríkustu menn landsins sýnir enn á ný að landið á fleiri milljarðamæringa (talið í Bandaríkjadölum) heldur en Bandaríkin og að bilið sé að aukast milli landanna.

Sá sem er efstur á listanum er fasteignamógúllinn Wang Jianlin sem á fyrirtækið Dalian Wanda. Í öðru sæti á listanum er Jack Ma, eigandi Alibaba netverslunarinnar, en auður hans hefur aukist um 41% frá síðasta ári.

Enginn Kínverji í topp 20

Listinn sem hefur verið tekinn saman af útgáfufyrirtækinu Hurun í Shanghai í 18 ár, er oft borinn saman við Forbes listann í Bandaríkjunum. Á listanum eru nú 594 milljarðamæringar, en sambærilegur listi yfir Bandaríkjamenn telur 535 milljarðamæringa.

Fyrr á árinu tók fyrirtækið saman annan lista sem náði yfir ríkasta fólk heims, en hann sýndi í fyrsta sinn að milljarðamæringar í Kína voru orðnir fleiri en þeir í Bandaríkjunum. Samt sem áður náði enginn af ríkustu Kínverja í efstu 20 sæti yfir ríkasta fólk heims.

Keypt sig inn í kvikmyndaiðnaðinn í Bandaríkjunum

Wang Jianlin sem er efstur á kínverska listanum á um 32,1 milljarð Bandaríkjadala, eða sem jafngildir um 3.700 milljörðum króna.

Fyrirtæki hans hefur á árinu komist í fréttir fyrir aðkomu sína að kvikmyndaiðnaðinum, en það tók yfir Legendary Pictures auk þess að kaupa sig inn í bandarískar og breskar kvikmyndahúsakeðjur. Auk þess hefur það farið í samstarf við Sony Pictures.

Auðurinn jókst um 820%

Jack Ma í Alibaba er ekki langt frá með um 30,6 milljarða dali og Pony Ma, sem á netleikjafyrirtækið Tencent er í þriðja sæti með um 24,6 milljarða.

Hástökkvarinn á listanum var Yao Zhengua í fjárfestinga- og fasteignafyrirtækinu Baoneng Group en auður hans jókst um 820% í 17,2 milljarða sem gefur honum fjórða sætið á listanum.

Kínverski markaðurinn að þroskast

Stjórnarformaður Hurun Robert Hoogewerf segir að stökk Yao sé merki um að kínverski markaðurinn sé að þroskast.

„Fjárfestingarmódel Yao er merki um nýja bylgju auðsköpunar í Kína. Fyrir tuttugu árum var fyrsti auðurinn í Kína skapaður frá verslun, síðan kom framleiðsla, síðan fasteignum, tækniiðnaði og nú snýst það um að nýta fjármálamarkaðina í fjárfestingar,“ segir Hoogwerf.

Flestir auðjöfrarnir búa í Beijing, Shenzhen, Shanghai og Hangzhou. Á listanum yfir ríkasta fólk heims er Bill Gates efstur með 75 milljarða, en í öðru og þriðja sæti eru Amancio Ortega eigandi Zara og fjárfestirinn frægi Warren Buffet.

Stikkorð: Kína Forbes Kína auður ríkustu Hurun milljarðamæringar