Menningar- og ferðamálasvið hefur auglýst laust til umsóknar stöðu safnstjóra hjá nýju safni í eigu Reykjavíkurborgar. Safnið mun fela í sér samruna og samþættingu starfsemi Minjasafns Reykjavíkur, Víkurinnar - Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Ljósmyndasafns Reykjavíkur og Viðeyjar.

Safnið, sem verður eitt stærsta safn landsins, hefur umsjón með menningarminjum í Reykjavík og ber ábyrgð á söfnun, skráningu, rannsóknum og miðlun á fjölbreyttum safnkosti: munum, húsum, ljósmyndum og minjum tengdum sjómennsku, siglingum, útgerð o.fl. sem eru einkennandi fyrir menningararf borgarinnar og varpar ljósi á sögu hennar og menningu. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að safnið muni jafnframt bera ábyrgð á skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja, rannsóknum og eftirliti þeirra og er ráðgjafi borgaryfirvalda um verndun menningarminja í Reykjavík og um önnur menningarsöguleg verkefni.

Undir safnið munu heyra söfnin og sýningarstaðirnir Árbæjarsafn og Landnámssýningin Reykjavík 871+/-2, ásamt sérsöfnum og safnheildum, Ljósmyndasafn Reykjavíkur í Grófarhúsi, Sjóminjasafnið að Grandagarði 8 og Viðey.